Skip to content

Gönguleiðir

Gönguleiðir

 1. Dyradalur – Marardalur – Engidalur

Um 5 km eru í Marardal en 2 km bætast við ef farið er áfram inn í Engidal. Þetta er auðveld leið sem hentar flestum, börn ráða vel við þessa leið. Aðeins þarf þó að gæta sín á klöppum sem geta verið hálar þar sem laus sandur er ofan á brattri klöpp.

Þetta er einstaklega falleg leið sem hefst við upplýsingaskilti í Dyradal. Haldið er til vesturs upp slakkann og þá til suðurs í átt að nokkuð hárri klettabrún, auðveld slóð er upp á brúnina þar sem við tekur ganga um eitt stórkostlegasta móbergs belti Hengilssvæðisins, Klungrin.

Þarna eru kynjamyndir náttúrunnar allt um kring og gaman að skjótast þangað upp í þoku sem eykur upplifunina enn frekar. Suður endi klettanna er sérlega athyglisverður og minnir helst á fílahjörð. Áfram liggur leiðin eftir móbergshryggnum um stóra og smáa skessukatla sem vindurinn hefur mótað í bergið. Þarna er útsýni til bæði austurs og vesturs og inn undir Vörðu-Skeggja sem gnæfir yfir dalverpi nokkru, þar sem finna má skilti sem skiptir leiðum.

Leið er til austurs upp og með norðurhlíðum Hengilsins (Leið 12). Sú sem við veljum liggur til vesturs upp litla hæð þar sem útsýni yfir Mosfellsheiði og Svínahraun opnast. Slóðin liggur nú niðurávið til suðausturs í átt að klettaskoru á brún Marardals.

Þaðan er haldið niður allbratta og grýtta brekku niður á botn dalsins þar sem lækur fellur niður í fossum í gili í austurendanum. Þarna er kjörið að staldra við og njóta fegurðar dalsins. Þegar gengið er eftir dalnum endilöngum og út um skarðið að sunnanverðu, er komið í gil sem liggur áfram til suðvesturs og opnast inn í  Engidal þar sem Múlasel er, sem er skáli Orkuveitunnar á Hengilssvæðinu. Í gilinu á milli Marardals og Engidals er skilti og við það hefst ein leiðanna á toppinn, Vörður-Skeggja sjálfan.

 1. Sleggjubeinsdalur – Innstidalur

Í Innstadal er kjörið að ganga með börn, gangan er auðveld og fjölbreytni dalsins mikil og ekki skemmir heitur lækur fyrir. Leiðin hefst í Sleggjubeinsdal innan við Hellisheiðarvirkjun. Gengið er upp hrygginn milli Sleggju og Skarðsmýrarfjalls upp í Sleggjubeinsskarð. Að austanverðu er öflugt hverasvæði sem skartar mikilli litadýrð.  Uppi í skarðinu er skilti sem skiptir leiðum, önnur um vesturhlíð skarðsins upp á Vörðu-Skeggja (Leið 10), hin sem við göngum leiðir okkur inn í Innstadal sem er innstur Hengladala.

Slóðin heldur áfram með suðurhlið dalsins sem er grasi gróinn og sléttur, girtur fjöllum allan hringinn, Hengillinn í allri sinni dýrð til norðurs. Að austanverðu er gróið hraun, þar þrengist dalurinn. Lækur rennur eftir dalnum sem verður að Hengladalsá og síðar Varmá, lækjarvatnið er gott til að fylla á drykkjarílát.

Í hrauninu er skilti sem skiptir leiðum, önnur áfram til austurs yfir á Ölkelduháls (Leið 8), hin til norðurs upp á Vörðu-Skeggja (Leið 11). Ef genginn er spotti yfir dalinn inn á Vörðu-Skeggja leiðina, að gömlum skála og þaðan niður í gilið austan við skálann, er komið að heitum læk. Þar er notalegt að skella sér í bað eða aðeins fótabað, velja má hitastig eftir því hve ofarlega er farið.

 1. Ölkelduháls – Klambragil – Ölkelduháls

Ótrúlega skemmtilegur og fjölbreyttur stuttur hringur sem ganga má hvort sem er rétt eða rangsælis. Hentar öllum og er sérstaklega skemmtilegur fyrir börn.

Ekið er af Suðurlandsvegi inn að Ölkelduhálsi að upplýsingaskilti undir Ölkelduhnúk. Þarna má velja hvort ganga skal rétt eða rangsælis.

Við göngum til suðurs (rangsælis) fyrst um gróna móa þar sem leið sveigir til austurs upp brekkustúf og áfram á klettabrún, gengið er niður í gil í nokkuð brattri skriðu, þarna er mikil hveravirkni og til austurs blasir Klambragil við. Heitur lækur rennur um gilið og í hann renna einnig kaldir lækir svo þarna er því frá náttúrunnar hendi frábær aðstaða til að fara í notalegt bað, enginn ætti að sleppa því. Gæta þarf að hitastigi, á köflum er lækurinn mjög heitur. Velja má sitt kjörhitastig upp eða niður með læknum.

Til suðurs liggur leið niður um Rjúpnabrekkur til Hveragerðis. Við höldum áfram til norðurs og upp hlíðina að austanverðu. Þarna er stórkostlegt útsýni í suður og sjást m.a. Kambarnir vel. Í slakka ofarlega undir Dalskarðshnúk er litskrúðugt hverasvæði og þarna er upplagt að staldra við, huga að nesti og njóta útsýnis. Skilti vísar þar til Úlfljótsvatns (Leið 7). Í gilinu rétt vestan við hverasvæðið er góð vatnsuppspretta þar sem fylla má drykkjarílát.

Leiðin liggur nú til norðurs, gengið er í austurhlíð Klambragils um brattar skriður, hér er fetað einstigi. Leiðin er í sjálfu sér auðveld, örugg og öllum fær, en lofthræðsla getur þó gert vart við sig og því gott að hafa göngustaf þarna. Uppi á brún Klambragils er gott útsýni til suðurs og skilti sem skiptir leiðum, önnur í austurátt til Kattartjarna og Ölfusvatns (Leið 6), hin sem við fylgjum til vesturs um Ölkelduháls milli Tjarnarhnúks og Ölkelduhnúks. Hér er gengið um víðáttumikið og öflugt hverasvæði með útsýni til Hengils, Skarðsmýrarfjalls og svo Þingvallavatns til norðurs. Gangan endar við skilti í vesturhlíð Ölkelduhnúks.

 1. Rjúpnabrekkur (Hveragerði) – Klambragil

Frá upplýsingaskilti við Rjúpnabrekkur ofan Hveragerðis er haldið af stað til norðurs upp ása og gilskorninga upp með Djúpagili og Reykjadalsá, á köflum utan í bröttum hlíðum. Þessi leið er auðveld, aðeins á fótinn og kjörin fyrir alla fjölskylduna. Börn hafa mjög gaman af þessari leið og þá sérstaklega heita læknum sem hægt er að baða sig í innst í Reykjadalnum. Þar hefur átt sér stað mikil uppbygging í kringum baðstaðinn til að taka við öllum þeim fjölda sem sækir dalinn.

Þessi gönguleið er mjög greinileg, án efa sú fjölfarnasta á Hengilssvæðinu. Ofan ásanna tekur við sléttlendi sem gengið er að austanverðu, slóðin sveigir síðan þvert yfir dalinn þar sem farið er yfir Reykjadalsá. Upp er svo haldið greinilega leið að vestanverðu undir Molddalahnúkum. Neðan við leiðina eru nokkrir stórir athyglisverðir hverir. Leiðin endar í Klambragili við skilti sem skiptir leiðum önnur til vesturs upp á Ölkelduháls (Leið 3), hin upp brekkuna að austanverðu að hverasvæðinu undir Dalskarðshnúk og upp á Ölkelduháls (Leið 3), áhugaverður hringur sem bæta má við gönguna (3,8 km).

Í Klambragili er mikil hveravirkni og blandast hitinn úr gilinu köldum lækjum sem lækkar hitastigið jafnt og þétt, finna má hitastig við hvers hæfi upp eða niður með læknum. Aðgæta skal vel hitastig þar sem lækurinn getur á köflum verið mjög heitur.

 1. Ölfusvatn – Ölkelduháls

Fjölbreytt og skemmtileg leið sem hentar öllum, hreint ævintýri fyrir börn og fullorðna að þræða gilið. Frá upplýsingaskilti við afleggjarann að Ölfusvatni er haldið yfir Grafningsveginn upp með Ölfusvatnsánni, fluga getur verið ágeng hér. Gengið er um kjarri vaxið land norðan árinnar um 2 km, þar sem stikla eða vaða þarf yfir ána. Þá er haldið upp vegarslóða sem fylgir barmi Ölfusvatnsgljúfurs, Mælifell blasir við handan gljúfursins.

Slóðin heldur áfram um sléttlendi að skilti í Seltungum undir Hrómundartindi, hér skiptast leiðir önnur til vesturs að Ölkelduhnúki, hin sem við fylgjum til austurs liggur um grunnt árgil í sveig fyrir tindinn. Þar tekur við stórfenglegur og ógleymanlegur hluti leiðarinnar. Undir austurhlíð Hrómundartinds er gengið inn í gilskorning sem þrengist og dýpkar því lengra sem farið er, gilið er svo þröngt að á köflum virðist sem veggirnir hvolfist yfir.

Eftir létt klifur í enda gilsins er komið upp við Kattartjarnir og gengið um hrjóstruga ása upp í grasi gróinn dal, meðfram Kattartjörn Efri og Álftatjörn. Þarna er frábært útsýni til Þingvallavatns. Gengið er með hlíðum Lakahnúks og Tjarnarhnúks að skilti við Ölkelduháls. Hér skiptast leiðir önnur niður til Dalasels og Klambragils (Leið 3). Hin sem við fylgjum er í raun hluti leiðar 3 að skilti undir Ölkelduhnúk og áfram að upplýsingaskilti um 1 km vestar.

 1. Úlfljótsvatn – Innstidalur

Fjölbreytt útsýnisleið, auðveld en kallar á úthald. Fluga er ágeng og því gott að hafa meðferðis flugnanet. Í bleytu eru legghlífar æskilegar þar sem gengið er í kjarri og djúpu grasi. Frá upplýsingaskilti við Úlfljótsvatn er fylgt vegaslóða til suðurs að Fossá. Þar sveigir slóðin upp með ánni. Gengið er um gott berjaland í nokkuð þéttu kjarri sem gisnar er komið er ofar í ásana. Ofan ásanna er farið yfir Fossá og gengið yfir Selflatir að Grafningsréttum.

Frá Selflötum er haldið upp á við á Dagmálafell með gott útsýni til allra átta, Þingvallavatn, Úlfljótsvatn, Grímsnes og Ingólfsfjall. Áfram er haldið eftir Efjumýrarhrygg í átt að Álút, létt en nokkuð löng ganga. Af Álút er stórfenglegt útsýni yfir Ölfus til Hveragerðis, Kamba og til Þingvallavatns.

Leiðin liggur nú um nokkuð bratta hlíð niður í Reykjadal. Þar er mjög virkt hverasvæði sem hefur breyst nokkuð í jarðskjálftanum 2008, margir nýir hverir hafa myndast og allnokkuð jarðrask þar sem hlíðar í giljum hafa skriðið fram. Því þarf að fara varlega eins og reyndar á öllum hverasvæðum. Áfram er haldið upp hlíðina undir Dalskarðshnúk og í gegnum Dalskarð.

Úr skarðinu rétt ofan við hverasvæðið sem staðsett er undir Dalskarðshnúk er gott útsýni yfir Klambragil og Molddalahnúka. Gengið er niður slakkann að vegpresti við Dalasel, þar skiptast leiðir, önnur liggur upp á Ölkelduháls (leið 3), hin sem við fylgjum niður í Klambragil. Þar er gott tækifæri til að baða sig í heita læknum, áður en haldið er áfram niður Rjúpnabrekkur til Hveragerðis. (Leið 5).

 1. Marardalur – Vörðu Skeggi

Erfið leið sem reynir nokkuð á úthald. Mjög brött leið í fyrstu. Leiðin hefst í Dyradal (Leið 1). Úr Marardal er gengið til suðurs um klettaskarð að skilti í gilinu, þar er vísað á Engidal/Sleggjubeinsskarð (Leið 4), við ætlum leiðina sem vísar á Vörðu-Skeggja. Frá skilti er haldið beint af augum upp mjög bratta gróna hlíð til austurs, auðvelt er að fóta sig í brekkunni þrátt fyrir brattann.

Á þessari leið er mesta hækkun tekin strax í fyrstu brekku um 3-400 metrar. Útsýni er stórkostlegt til vesturs og fallegt að horfa niður í Engidal og Marardal. Slóðin þarna er fremur óljós, þetta er sennilega ein fáfarnasta leið á Hengilssvæðinu, en eins og á öðrum leiðum eru stikur mjög greinilegar. Ofan hlíðar tekur við stór mosavaxin slétta þar sem Vörðu-Skeggi gnæfir yfir til norðurs.

Slóðin liggur yfir sléttuna og sveigir til suðurs þar sem krækt er upp með gilskorningi inn á mikla móbergssléttu sem teygir sig langa leið til suðurs. Haldið er að skilti beint framundan sem skiptir leiðum, önnur niður í Sleggjubeinsskarð (Leið 10), hin sem fylgt er áfram á Vörðu-Skeggja.

 1. Sleggjubeinsskarð – Vörðu Skeggi

Nokkuð erfið leið, virðist löng en er álíka og aðrar leiðir á Vörðu-Skeggja. Hækkar jafnt og þétt. Þessi leið er ekki fyrir lofthrædda. Leiðin hefst í Sleggjubeinsdal (Leið 2). Frá skilti í Sleggjubeinsskarði er í fyrstu haldið skáhalt upp vesturhlíð Sleggju, leiðin sveigir til vesturs um gróna ása. Hér borgar sig að fylgja slóð þótt stikur sjáist í fjarska til norðurs og freistandi að stytta sér leið, gil sem skera ásana gera þá styttingu að engu. Leiðin sveigir til norðurs um ása með góðu útsýni yfir Innstadal, allt er þetta jafnt og þétt á fótinn.

Útsýni til allra átta eykst eftir því sem ofar er komið. Efst í ásunum er krækt fyrir gil og klifin allbrött en stutt brekka, þar taka við móbergsstallar sem þræddir eru áfram uppávið. Ofan stallanna er komið á örmjóan hrygg með brattar skriður niður í Innstadal að austanverðu, en 400 metra þverhnípið niður í Engidal að vestanverðu, þessi leið er ekki ráðleg fyrir lofthrædda.

Hryggurinn samanstendur af háum móbergsdröngum með skörðum á milli, gengið er einstigi utan í austurhlið hryggsins að allnokkru skarði milli dranganna, þarna er frábær útsýnispallur sem opnast eins og gluggi til vesturs. Leiðin liggur nú upp mjög bratta hlíð með lausum jarðvegi, hér þarf að fara varlega og hafa örugga fótfestu í hverju skrefi. Göngustafur er nauðsyn hér, sennilega varasamasti staðurinn á stikuðum leiðum um Hengilinn.

Ofan hlíðar er komið á myndarlega grasflöt, Vörðu-Skeggi blasir nú við og haldið er áfram til norðurs nú niðurávið um mólendi í fyrstu en svo um klappir og kletta sem taka á sig furðulegustu myndir og áfram yfir móbergssléttu að skilti. Leiðir skiptast þarna, önnur til vesturs niður í Marardal (Leið 9), hin sem við fylgjum, til austurs upp á Vörðu-Skeggja.

 1. Innstidalur – Vörðu Skeggi

Nokkuð brött upp úr Innstadal en ein auðveldasta leiðin upp á Vörðu-Skeggja. Leiðin hefst í Sleggjubeinsdal (Leið 2). Frá skilti í austanverðum Innstadal er haldið til norðurs að gömlum skála sem þar er og upp gróinn hrygg til norðausturs, þarna er nokkuð bratt og mesta hækkun þessarar leiðar er upp þennan hrygg. Þarna er greinilegur stígur sem auðvelt er að fóta sig á. Í gilinu austan við hrygginn er litskrúðugt hverasvæði og eftir gilinu rennur heitur lækur sem vinsæll er til baða.

Ofan hryggjar tekur við gróðursælt dalverpi sem gengið er áfram til norðausturs þar til komið er að móbergsstöllum, sem þarf að klöngrast upp. Ofan þeirra taka við berar móbergsklappir, gróður er þarna lítill og mjög viðkvæmur, fylgjum því slóðum. Ofar taka við melar og sendnir ásar, þar er útsýn til Þingvallavatns og yfir Hengilssvæðið austanvert. Við erum nú á hásléttu Hengilsins, skilti skiptir þarna leiðum, önnur til austurs niður til Dyradals og Nesjavalla (Leið 13), hin sem fylgt er að Vörðu-Skeggja.

 1. Dyradalur – Vörðu Skeggi

Stórbrotin og falleg leið, hrikaleg á köflum nokkuð bratt en allsstaðar auðvelt að fóta sig. Frá skilti (Leið 1) í dalverpi sunnan við Klungrin er haldið til suðausturs upp gil í norðurhlíð Vörðu-Skeggja sem gnæfir þarna yfir, gengið er um grónar brekkur til austurs þar sem leiðin liðast áfram upp með hlíðum fjallsins, upp og niður þar sem krækt er fyrir kletta og björg. Fallegt útsýni er yfir Klungrin, Skeggjadal og Kýrdalshrygg.

Upp af Kýrdal liggur leiðin aftur niðurávið til norðausturs og sveigir síðan í hálfhring að skilti sem skiptir leiðum önnur til austurs til Nesjavalla (Sjá leið 13) hin sem við fylgjum á Vörðu-Skeggja.

 1. Nesjavellir – Vörðu Skeggi

Stórbrotin og falleg leið, hrikaleg og brött þegar ofar dregur en öruggur stígur. Haldið er til vesturs frá upplýsingaskiltinu við Adrenalíngarðinn að vegvísi sem skiptir leiðum; önnur áfram í Nesjavallavirkjun og Köldulaugagil (græn leið), hin sem við fylgjum til austurs (blá leið) upp eftir Stangarhálsi í suðvestur upp á Ölfusvatnsskyggni. Þar er stórkostlegt útsýni yfir á Ölkelduháls, Grafning, Nesjavallavirkjun og Köldulaugagil.

Áfram liggur leiðin upp undir Nesjaskyggni þar sem sveigt er til vesturs með hlíðinni. Upp af Kýrdalsbrúnum er sveigt upp hlíðina að skilti upp af Kýrdal. Hér skiptast leiðir önnur í Dyradal og Marardal (leið 12), hin sem við fylgjum á Vörðu-Skeggja.

Gönguleiðir í nágrenninu!

Adrenalíngarðurinn er staðsettur á Nesjavöllum. Nesjavellir eru norður af Hengilsvæðinu og liggja niður að Þingvallavatni. 

 Margar fallegar gönguleiðar eru í kringum Adrenalíngarðinn. og hér má lesa um nokkrar þeirra.
AÐSTAÐAN 2